Ferðastu um sléttur Kenía
Norðan við Keníafjall, við bakka árinnar Ewaso Nyiro, er Samburu verndarsvæðið. Samtökin Save the Elephants hafa rannsakað fílana á svæðinu í meira en 20 ár. Kynntu þér landslagið, fólkið og dýralífið í Samburu.
Skilningur á fílum og verndun þeirra
Auðkenndir fílar
1.450
Skráðar vettvangsathuganir
20.655
Klukkustundir af GPS-rakningu
845.000
Hér sérðu Pilipili úr Kryddfjölskyldunni en nafn hennar merkir chili-pipar á svahílí. Fílafjölskyldurnar fá nöfn sem byggja á tilteknu þema (t.d. Konungsfjölskyldan) og svo fær hver fjölskyldumeðlimur nafn í anda þess þema (t.d. Elizabeth, Henry, Noor). Fílsungar eru auðkenndir með talnakóðum sem byggjast á því hver móðir þeirra er og árinu sem þeir eru fæddir. Fyrir aftan Pilipili má sjá fimm ára gamlan kálf hennar sem ber talnakóðann M63.9410. Kanna þennan stað.
Þessi 16 ára tarfur er sonur Ebony, ættmóður Harðviðarfjölskyldunnar, sem veiðiþjófar felldu árið 2011. Auðvelt er að greina tarfa frá kúm því þeir eru stærri og höfuðið er meira hringlaga. Þegar karlkyns fílsungar vaxa úr grasi ganga þeir inn í samfélag tarfa og segja skilið við fjölskyldur sínar til að slást í för með öðrum törfum í makaleit. Í kringum 30 ára aldurinn fer tarfurinn reglulega að ganga í gegnum musth-tímabil sem eykur líkur hans á að maka sig. Kanna þennan stað.
Fílar eru miklar félagsverur og verja miklum tíma með fjölskyldunni og öðrum fílum. Þeir geta þekkt hundruð annarra fíla. Til vinstri er Alto úr Skýjafjölskyldunni með kálfinn sinn, og til hægri er Habiba sem tilheyrir Svahílí-dömunum (takið eftir GPS-ólinni!). Eftir að veiðiþjófar drápu móður hennar varð Habiba munaðarlaus og gekk til liðs við Kryddin þar til hún eignaðist kálf. Dóttir hennar sést í bakgrunninum, ásamt Laylu og kálfinum hennar úr Svahílí-dömunum. Kanna þennan stað.
Hittu fílafjölskyldurnar í Samburu
Fjölskyldugerðin er fílum afar mikilvæg, og fyrir heilbrigði fílshjarðar skiptir öllu máli að vernda hana. Save the Elephants hefur auðkennt og fylgst með meira en 70 fílafjölskyldum í Samburu. Verðu tíma með þeim.
Verndun fílanna í Kenía
Mikill veiðiþjófnaður hefur verið stundaður í Afríku undanfarin ár, og féllu meira en 100.000 fílar á árunum 2010-2012. Öflugur hópur einstaklinga og samtaka vinnur saman að því að vernda þá. Kynntu þér baráttuna fyrir framtíð afríkufílsins.
Ólar
Ólar
Save the Elephants notar GPS-ólar til að rekja ferðir fíla í náttúrunni. Eftirlitið með fílunum gerir samtökunum kleift að rekja ferðamynstur, fylgjast með breytingum á hegðun og tryggja öryggi einstakra fíla. STE hefur sett ólar á alls 266 fíla víða um Afríku.
Eftirlit
Eftirlit
Fylgst er með fílunum frá jörðu niðri og úr lofti og með GPS-rakningu. Rannsakendur verja ómældum tíma í að skrá niður upplýsingar um hegðun og ferðir fíla, og á stöðum eins og á Lewa verndarsvæðinu eru gögn frá fílaólum felld inn á Google Earth til að rekja ferðir fíla nánast í rauntíma.
Gæsla
Gæsla
Það geisar stríð víða í Afríku um framtíð fílanna. Í Samburu eru þjálfaðir blóðhundar notaðir til að finna veiðiþjófa í kjarrinu. Dýralífsþjónustan í Kenía, verðir á Samburu verndarsvæðinu og Northern Rangelands verndarsamtökin hafa unnið saman að því að berjast gegn veiðiþjófum. Það hefur gengið vel og árið 2014 var það fyrsta þar sem fleiri fílar fæddust en dóu síðan veiðiþjófnaðarkrísan hófst sex árum áður. Annars staðar í Afríku heldur baráttan áfram.
Endurhæfing
Endurhæfing
David Sheldrick Wildlife Trust berst fyrir því að vernda dýralíf Afríku, þar á meðal fíla. Í gegnum munaðarleysingjaverkefnið í Nairobi eru slasaðir og munaðarlausir fílar endurhæfðir svo hægt sé að sleppa þeim aftur út í náttúruna Fílsungar njóta umönnunar gæslumanna allan sólarhringinn, sem hjálpar þeim að aðlagast umhverfinu og eykur líkurnar á að þeir lifi af þegar þeim er aftur sleppt út í náttúruna.
Skipulagning
Skipulagning
Fílarnir í Samburu fara frá einu svæði til annars um mjóar leiðir sem nefnast „slóðir“. Á ferðum sínum um þessar slóðir stafar þeim ógn af bæði mönnum og farartækjum. Eftir að hafa séð GPS gögn frá Save the Elephants tryggði Mount Kenya Trust sér bæði land og fjárveitingu til að byggja göng svo fílar gætu með öruggum hætti komist undir þessa hraðbraut.
Samburu verndarsvæðið er í norðurhluta Kenía, um 6 tíma akstur frá höfuðborginni Nairobi. Á svæðinu má finna allt frá þykkum frumskógi til opinna gresja og hrikalegra fjalla. Áin Ewaso Nyiro rennur með fram suðurmörkum svæðisins og er lífæð þess með því að sjá fólki, plöntum og dýrum fyrir vatni.
Í Samburu er fjölbreytt dýralíf, þar sem finna má heitar og þurrar gresjur, hrjóstrugt landslag og á rennur í nágrenninu. Febrúar og mars eru heitustu mánuðirnir og regntímabilin eru tvö á árinu. Hér rísa pálmatré upp úr þurru landslaginu, og í fjarska sjást útlínur Koitogor og Ololokwe fjallanna.
Gestir koma til Samburu til að sjá fíla, hlébarða, ljón og gíraffa, sem og rúmlega 450 fuglategundir. Grevy’s sebrahestar, sem finnast aðeins á þessu svæði, þekkjast á mjóum röndum, stórum og kringlóttum eyrum og þreknum búk. Á ferð um svæðið gæti maður séð sómalíustrúta, nílarkrókódíla og stórar hjarðir oryx-antilópa, en öll þessi dýr kjósa heitt umhverfi eins og þetta. Kanna þennan stað.
Samburu er frægt fyrir að þar er einn best rannsakaði fílastofn í heimi. Þar sem rannsóknir hafa verið stundaðar á þeim í 20 ár eru fílar á svæðinu mjög gæfir og koma alveg upp að farartækjum, sérstaklega rannsóknarbílum frá Save the Elephants. Fílar hafa frábært ratminni, skilja hvar mörk Samburu verndarsvæðisins liggja og eru talsvert rólegri þegar þeir eru innan þess. Kanna þennan stað.
Fílar gegna mikilvægu hlutverki í að móta landslagið á svæðinu. Þeir hjálpa frædreifingu með því að borða ávexti af trjám og dreifa svo fræjunum með taði. Fílar rífa börkinn af trjám, brjóta niður gróður og stuðla þannig að nauðsynlegum endurvexti og dýpri frægrunni. Á þurrkatímum grafa þeir holur til að finna vatn sem önnur dýr nýta sér svo. Fílar hafa mikil áhrif á landslagið.
Save the Elephants var stofnað árið 1993 og helgar sig því að tryggja framtíð fílanna og vernda vistfræðilegt umhverfi þeirra. STE er með höfuðstöðvar í Nairobi og starfar um alla Afríku að því að skilja og vernda fíla. Aðalrannsóknastöðin er í Samburu þar sem fylgst er með fílum frá jörðu niðri, úr lofti og með GPS-rakningu. Þau einbeita sér að rannsóknum til að styðja við skipulagningu og stefnumótun og vinna að því að bæta sambandið milli manna og fíla. Kanna þennan stað.
Á sjöunda áratug tuttugustu aldar hóf líffræðingur að nafni Douglas Hamilton fyrstu atferlisrannsóknir á villtum fílum í Tansaníu og notaðist við létta flugvél til að fylgjast með fílunum og telja þá. Árið 1993 stofnaði hann Save the Elephants og valdi fljótlega hina einstaklega gæfu fíla í Samburu sem viðfangsefni nýrrar langtímarannsóknar á fílum. Rannsóknin í Samburu vekur fólk um allan heim til vitundar um þær ógnir sem að fílum steðja og skapar lausnir sem tryggja tegundinni framtíð.
Save the Elephants fylgist ekki bara með fílum úr lofti heldur einnig með stökum fílum með hjálp GPS-óla. Eftir að hafa svæft hann setja dýralæknar hálsól á fílinn til að geta rakið staðsetningu hans. Þau gögn hjálpa rannsakendum að skilja hvernig þessi dýr fara um landsvæðið, auk þess að fylgjast með lífi ákveðinna fíla. Með því að greina GPS-gögn getur Save the Elephants einnig sjálfkrafa fengið tilkynningu ef fíll hættir að hreyfa sig. STE hefur sett ólar á 266 fíla vítt og breitt um Afríku hingað til.
Save the Elephants safnaði miklu magni af gögnum frá GPS-ólum fílanna, en þurfti að finna leið til að myndgera þau. Árið 2006 byrjuðu samtökin að leggja gögnin yfir stafrænt landslag Google Earth, svo betra varð að rekja ferðir fílanna. Nú nota þau tölvunarhæfni Google Earth Engine til að greina meira en fimm milljónir skráðra staðsetninga frá 266 fílum á 17 árum.
Fílar fara víða um og rekast oft á vegi, hús, sveitabæi og fólk Árekstar milli manna og fíla eru stórt vandamál í fílavernd, og ein leiðin til að tryggja öryggi fílanna er að greiða götu þeirra. Eftir að hafa séð gögn um ferðir fíla var þessi brú byggð svo fílar gætu með öruggum hætti komist undir þessa hraðbraut. Kanna þennan stað.
Veiðiþjófnaður er alvarlegasta ógnin við fíla í Afríku. Fílar eru drepnir vegna fílabeinsins í tönnunum þeirra, sem er svo selt víða um heim. Dráp á eldri fílum hafa skelfileg áhrif á fjölskyldugerðir og gera marga fílsunga munaðarlausa. Baráttan gegn veiðiþjófnaði krefst ekki bara harðra viðlaga til að fæla veiðiþjófa frá, heldur einnig minni eftirspurnar eftir vörum úr fílabeini.
Þegar fíll deyr er það menningarlegur missir fyrir Samburu-fólkið. Veiðiþjófnaður veldur óstöðugleika í lífi þeirra sem lifa með fílunum, þar sem veiðiþjófar fara víða um í leit að fílabeini. The Northern Rangelands Trust virkjar fólkið á staðnum í sínu verndarstarfi, gerir jarðir að verndarsvæðum og skapar efnahagsleg tækifæri í gegnum ferðamennsku, sem undirstrikar enn frekar gildi fílanna í Samburu.
Þessir verðir eru í fremstu víglínu stríðsins gegn veiðiþjófum og leggja líf sitt í hættu til að vernda fílana í Þeir fá ábendingar frá heimamönnum og samtökum og fínkemba svo umhverfið með þjálfuðum hundum í leit að ólöglegri starfsemi. Verðlaunað starf Lewa verndarsvæðisins og Dýralífsþjónustunnar í Kenía hefur hjálpað til að fækka þeim fílum sem falla í hendur veiðiþjófa í N-Kenía niður í 1% af heildarstofninum, sem er stór sigur í hinni erfiðu baráttu fyrir lífi fílanna.
Þegar veiðiþjófar drepa fíl, hvað verður um afkvæmi hans? The David Sheldrick Wildlife Trust var stofnað árið 1977 og veitir dýrum í neyð aðstoð, þar á meðal munaðarleysingjum. Á fílamunaðarleysingjahælinu í Nairobi sjá gæslumenn um að fæða og þjálfa fíla og tryggja að þeir venjist því að umgangast aðra fíla. Þessi umönnun skiptir sköpum ef ala á upp heilbrigða fíla sem hægt er að sleppa aftur lausum út í náttúruna. The Sheldrick Trust hefur alið upp meira en 180 fílsunga. Kanna þennan stað.
Árið 2012 fór STE fyrst fram á það að fá Street View bílinn til Samburu til að ná 360 gráðu víðmyndum af fílum í náttúrunni. Þótt það geti ekki allir heimsótt Samburu geta allir farið í safaríferð á netinu og hitt fílana. Með því að gera fólki fært að skoða fílana í návígi á netinu vona rannsakendur og málsvarar fílanna að fólk tengist þeim betur og fái aukinn áhuga á að tryggja framtíð þeirra.
Fílunum í Samburu bjargað
Í sögum frá Samburu er talað um sameiginlegan uppruna manna og fíla, og síðustu 20 ár hafa höfuðstöðvar Save the Elephants verið hér. Uppgötvaðu hvernig gagnarannsóknir þeirra hafa gjörbylt verndarstarfi fílanna.
Skilaboð frá
Iain Douglas-Hamilton
Ég uppgötvaði undraheim fyrir 50 árum þegar ég byrjaði að kynna mér fílana við Manyara-vatn í Tansaníu. Ég var þaðan í frá gagntekinn af þessum stórfenglegu skepnum og því magnaða umhverfi sem þær lifa í -- þykkum frumskógum, víðáttum gresjunnar, bugðóttum ám, stöðuvötnum, eldfjöllum og hraunelfi, frá kjarri til eyðimarka og himinhárra fjalla.
Samburu er eitt af þessum svæðum, og það dýrmætasta í mínum huga því þar á ég heima. Það gleður mig að deila mínum uppáhaldsstað á Street View, og leyfa fólki hvar sem er að kynna sér heimkynni fílanna með stafrænum hætti. Við vonum að þú öðlist betri skilning á fílum með því að upplifa þetta svæði á Google kortum og Google Earth, og að það hvetji þig til að grípa til aðgerða fyrir þeirra hönd.
Fílar, og mörg önnur villt dýr, þurfa okkar hjálp. Við verðum að leyfa fegurð náttúrunnar að blómstra með okkur. Við komum Samburu-fílunum á netið svo fólk geti „hitt“ þá, upplifað fegurð heimkynna þeirra og áttað sig á að grípa þarf til aðgerða þeim til verndar. Því betur sem við skiljum heim náttúrunnar og íbúa hennar, því meira getum við gert til að hjálpa þeim að komast af á jörðinni. Taktu þátt í að berjast fyrir vernd fílanna í Afríku.
—Iain Douglas-Hamilton, PhD, CBE
stofnandi, Save the
Elephants
15.eptember, 2015
Verðu tíma með Save the Elephants
Frá eftirliti úr lofti til GPS-hálsóla eru STE ein fremstu fílarannsóknasamtök í heimi. Hittu hina iðnu vísindamenn og málsvara sem hafa helgað líf sitt því að tryggja fílum öruggari framtíð.
Frekari upplýsingar

Save the Elephants helgar sig því að tryggja framtíð fílanna, viðhalda kjörlendi
þeirra, kynna greind þeirra og flókinn heim þeirra fyrir fólki, og skapa samband
umburðarlyndis milli þessar tveggja tegunda.
savetheelephants.org

The David Sheldrick Wildlife Trust varð til vegna ástríðu einna fjölskyldu fyrir Kenía og villtri náttúru landsins og er í dag sú stofnun í heiminum sem hefur náð mestum árangri í björgun og endurhæfingu munaðarlausra fíla og fer fyrir öðrum samtökum sem berjast fyrir verndun dýra og heimkynna þeirra í Austur-Afríku. sheldrickwildlifetrust.org

The Lewa Wildlife Conservancy hefur unnið til margra verðlauna og er öðrum fyrirmynd fyrir verndarstarf sitt, er á heimsminjaskrá UNESCO og á grænum lista International Union for the Conservation of Nature yfir vel heppnuð verndarsvæði. Lewa er hjarta dýraverndar, sjálfbærrar þróunar og ábyrgrar ferðamennsku í norðurhluta Kenía. lewa.org

Samburu-svæðið hefur verið heimkynni manna alveg síðan þeir komu fyrst fram á sjónarsviðið, og stjórnvöld á staðnum leggja kapp á að bæta velferð fólks og dýra og verja umhverfi þeirra. Með verkefnum sem beinast að efnahagslífinu, innviðamenntun og dýravernd eru stjórnvöld í Samburu staðráðin í að bæta aðgengi og öryggi á svæðinu. samburu.go.ke

KWS helgar sig því að bjarga merkum dýrategundum og stöðum á jörðinni, mannkyninu
til heilla. Markmið þess er að vernda, stjórna og bæta dýralíf Kenía og kjörlendi
þess með sjálfbærum hætti, svo komandi kynslóðir fái einnig notið þess.
kws.go.ke

Google Earth Outreach er sérhannað til þess að hjálpa samtökum sem starfa í almannaþágu að nýta sér mátt Google Earth og Maps til þess að sýna og kynna það mikilvæga starf sem þau vinna. Earth Outreach verkefni snúast um umhverfið, menningarlegt verndarstarf, störf í þágu mannúðar og fleira. google.com/earth/outreach