Ferðastu aftur í tímann
Fyrir nálega 5000 árum síðan reistu Egyptar píramída sem grafhýsi fyrir konunga sína utan við hina fornu Memfisborg. Þessir minnisvarðar standa enn þann dag í dag í borginni Giza. Auktu aðdráttinn til að kanna þá.
Báknið byggt:
Píramídinn mikli
ALDUR Í ÁRUM
4500
STEINAR NOTAÐIR
2.300.000
ÁR Í BYGGINGU
20
Grafið eftir sannleikanum
Öldum saman hafa Egyptalandsfræðingar og fornleifafræðingar rannsakað píramídana.
Þrátt fyrir það
er saga þeirra að miklu leyti óþekkt.
Hvað vitum við með vissu?
SAGA
SAGA
Við vitum að hafist var handa við að reisa fyrsta píramídann í kringum 2600 f.Kr., á valdatíma fjórðu faraóaættarinnar, einnar af 31 konungaætt egypskrar sögu. Fjórða ætt faraóanna var hluti af hinu gamla konungsríki Egyptalands og ríkti þar frá 2613 f.Kr. til 2494 f.Kr., meira en 2500 árum fyrir tíma Kleópötru drottningar.
STAÐSETNING
STAÐSETNING
Við vitum að píramídarnir voru reistir skammt fyrir utan hina fornu egypsku borg Memfis, höfuðborg fjórðu faraóaættarinnar og heimkynni faraóanna sem að byggingu þeirra stóðu. Nálægð borgarinnar við ána Níl kom að gagni við flutninga á byggingarefninu til greftrunarsvæðisins í Giza.
TILGANGUR
TILGANGUR
Við vitum að píramídarnir voru reistir sem grafhýsi fyrir faraóa (konunga) Egyptalands til forna og þeim var ætlað að greiða leið þeirra til himna. Þegar faraóar létust voru þeir smurðir og þeim komið fyrir í viðar- og steinkistum. Mikilvægir hlutir fyrir framhaldslífið voru grafnir með faraóum, allt frá innanstokksmunum til verðmætra dýrgripa. Faraóar byggðu píramídana ekki einvörðungu sem legstaði heldur einnig sem arfleifð veldis síns.
BYGGINGAREFNI
BYGGINGAREFNI
Við vitum að píramídarnir voru að megninu til úr kalksteini en einnig var notast við granít, steypu, basalt og leðju við byggingu þeirra. Meðalsteinninn vó 2,5 tonn og margir steinanna voru fluttir um allt að 800 km leið með prömmum. Enn greinir menn á um hvernig steinunum var komið fyrir á sínum stað. Um 5,5 milljónir tonna af kalksteini voru notaðar við byggingu Píramídans mikla, sem er meira en tíföld þyngd Burj Khalifa, hæstu byggingar heims.
VINNA
VINNA
Við vitum að tugir þúsunda manna byggðu píramídana þótt útilokað sé að segja til um nákvæmlega hversu margir. Þar til nýlega var talið að þrælavinna hefði verið notuð til byggingarinnar en nú vitum við að farandverkamenn unnu, bjuggu og voru grafnir á svæðinu. Einn hópur verkamanna risti gælunafn sitt á innanverðan píramídann sem hann reisti: „Fylliraftar Mýkerínosar“.
Milljónir manna hafa ferðast eftir þessum vegi til að sækja heim eitt
frægasta kennileiti jarðar. Í fjarska sjást píramídar Keops, Kefrens og
Mýkerínosar bera vihimin eins og manngerð fjöll.
Kanna þennan stað
Gakktu alveg upp að Kefrens-píramídanum og ímyndaðu þér hann þakinn sléttum
og hvítum steini. Í áranna rás hefur upprunalegu steinþekjunni verið rænt
ásamt mörgum gripum úr grafhýsinu sjálfu. Snúðu þér í hálfhring til að sjá
píramída Mýkerínosar.
Kanna þennan stað
Sfinxinn mikli er í ljónslíki en með mannshöfuð og kúrir við austurenda
svæðisins. Hann er 73 metra langur og 20 metrar á hæð og ein stærsta höggmynd
veraldar. Skoðaðu hann betur: Nefið vantar á hann (en sagnfræðingar geta ekki
sagt til um hvernig það bar til).
Kanna þennan stað
Ferðastu um píramídana miklu
Vertu þinn eigin leiðsögumaður á ferð þinni á milli merkustu staða greftrunarsvæðisins í Giza og skoðaðu betur eitt frægasta fornleifasvæði heims.
Píramídarnir í Giza eru einhver elstu og áhrifamestu mannvirki jarðarinnar. Þeir voru byggðir fyrir þúsundum ára og standa uppi sem vitnisburður um verkfræðiafrek fyrri kynslóða. Ferðastu um tímann og kannaðu þessi undur fornaldar.
Píramídi er form með þríhyrndum hliðum sem mætast í tindi efst. Finna má fleiri en 100 píramída í Egyptalandi sem flestir hverjir voru reistir sem grafhýsi konunga. Engir þeirra eru þó jafnauðþekkjanlegir og píramídarnir í Giza. Píramída er einnig að finna í öðrum heimshlutum, þar á meðal á Ítalíu, Indlandi og í Mexíkó.
Píramídarnir í Giza voru reistir fyrir 4500 árum í valdatíð fjórðu konungaættarinnar, á gullöld Egyptalands. Rúmlega 85 ár tók að byggja þá og um það sáu þrjár kynslóðir faraóa; Keops, Kefren, sonur hans, og sonarsonurinn Mýkerínos. Þrír minni drottningarpíramídar standa meðfram grafhýsunum.
Píramídinn mikli, sem Keops lét reisa, var fyrsti og stærsti píramídinn í
Giza. Hann er 139 metrar á hæð og var hæsta mannvirki heims um næstum 4000
ára skeið. Píramídinn kallast á við höfuðáttirnar og snýr næstum fullkomlega
í hánorður, sem er ótrúlegt byggingarfræðilegt afrek.Við hlið Píramídans
mikla stendur Keops-skipið, fullkomlega varðveitt sólarskip sem ætlað
var að ferja faraóinn til framhaldslífsins.
Kanna þennan stað
Píramídi Kefrens hefur hvítan topp og viðist vera sá stærsti af píramídunum
þremur. Í raun var hann hins vegar byggður á hærri berggrunni til að virðast
stærri. Þótt ótrúlegt megi virðast má rekja samhverfar hliðar og endurtekin
horn þessa píramída til notkunar einfaldra verkfæra á borð við mælistikur og blýlóð.
Kanna þennan stað
Sfinxinn mikli er höggmynd úr kalksteini af því sem er líklega höfuð Kefrens
á búk ljóns. Sfinxinn er goðsagnavera sem faraóar töldu að gætu komið þeim í
mjúkinn hjá sólarguðinum í framhaldslífinu. Um aldir var Sfinxinn mikli að
mestu grafinn í kvikan sand eyðimerkurinnar en hefur í dag verið grafinn upp
að fullu.
Kanna þennan stað
Þriðji og minnsti píramídinn í Giza er grafhýsi Mýkerínosar sem stendur syðst
á svæðinu. Mýkerínos hefur verið uppspretta bæði magnaðra dýrgripa og
vonbrigða á sviði fornleifafræði. Fyrst kom í ljós að mannabein sem fundust í
grafhýsinu komu annars staðar frá og síðan fórst steinkista úr píramídanum í
skipsskaða.
Kanna þennan stað
Enginn veit fyrir víst hvernig þetta forna samfélag fór að því að byggja svona stórbrotna minnisvarða. Bygging píramídanna fól í sér flutning gríðarstórra steinblokka til Giza-svæðisins og síðan notkun rampa, trissa og vogarstanga til að stafla þeim með fullkominni nákvæmni. Tugir þúsunda launaðra verkamanna (ekki þræla) reistu píramídana miklu, sem eru tæknilega mun háþróaðri en eldri þrepapíramídar.
Eftir andlát faraós tók 70 daga að smyrja líkið, sem meðal annars fól í sér að fjarlægja heila og innri líffæri. Múmían var þá „endurlífguð“ eftir kúnstarinnar reglum, þar á meðal í trúarathöfninni „opnun munnsins“ sem ætlað var að gera faraó kleift að anda og tala í framhaldslífinu. Múmíunni var síðan komið fyrir í viðarkistu og loks voldugri steinkistu. Sumar múmíur báru grímur, líkt og þetta mun yngra dæmi um grímu Tútankamons frá Google Cultural Institute sýnir.
Píramídarnir voru reistir í útjaðri gömlu höfuðborgarinnar, Memfis, og standa nú í stuttri akstursfjarlægð frá núverandi höfuðborg Egyptalands, Kaíró. Þótt þetta sé hentugt fyrir ferðamenn hefur nálægð þeirra við þessa sívaxandi borg haft í för með sér nýjar áskoranir, til dæmis hávaða-, ljós- og loftmengun.
Uppgötvaðu undur veraldar
Píramídinn mikli var valinn eitt sjö undra veraldar á 2. öld f.Kr. og er hið eina
þeirra sem enn stendur. Fáðu frekari upplýsingar
um þessi furðuverk sem verkfræðiþekking mannsins gerði möguleg.
Forn arfleifð varðveitt
Píramídarnir í Giza voru hannaðir til að endast um alla eilífð. Hingað til hefur þeim tekist það; píramídarnir miklu eru eina eftirstandandi undur fornaldar.
Arkitektúr þessara mannvirkja er svo óvenjulegur að sagnfræðingar vita enn ekki nákvæmlega hvernig Forn-Egyptum tókst að reisa þau án verkfræðiþekkingar nútímans. Píramídarnir hafa staðið af sér náttúruöflin í 4500 ár og tróna enn líkt og manngerð fjöll sem bera vitni um hugvit þeirra sem þá reistu. Arfleifð Egyptalands til forna er varðveitt í þessum minnisvörðum.
Píramídarnir eru nú varðveittir á glænýjan hátt fyrir tilstilli Street View. Hvort sem þú ert heima, í vinnunni eða í skólanum geturðu einfaldlega dregið fingur eða bendil um skjáinn og nýtt þér nútímatækni til að kynna þér tækni fornaldar frá öllum sjónarhornum.
Þú getur einnig heimsótt aðra merkisstaði Egyptalands með Street View, þar á meðal greftrunarsvæðið í Saqqara, Qaitbay-virkið, borgarvirkið í Kaíró, kirkjuna hangandi og rústir Abu Mena.
Skoða víðmyndir af píramídunum
Markaðu spor í sandi tímans á ferðum þínum um píramídana í Giza sem nú eru í Street View.