Myndasafnið okkar frá Kóralrifinu mikla var fyrsta safnið af neðansjávarvíðmyndum sem við bættum við Google kort. Það markaði næsta skref í viðleitni okkar til að veita notendum aðgang að yfirgripsmesta, nákvæmasta og gagnlegasta heimskorti sem völ er á. Þessar líflegu og töfrandi myndir þýða að þú þarft ekki að kunna að kafa – og ekki einu sinni að synda – til að kynna þér og upplifa sex af mögnuðustu lifandi kóralrifum hafsins. Nú getur hver sem er orðið næsti Jacques Cousteau sýndarveruleikans og kafað með sæskjaldbökum, fiskum og djöflaskötum.
Frá og með deginum í dag geturðu notað Google kort til að sjá sæskjaldböku synda meðal fiskitorfu, fylgja eftir djöflaskötu og upplifa rifið við sólsetur. Þú getur einnig fengið ýmsar frekari upplýsingar um þetta rif á vefsvæði World Wonders verkefnisins sem miðar að því að koma á netið vernduðum svæðum heimsins, að nýju sem fornu.
Við áttum í samstarfi við Catlin Seaview Survey, stóra vísindastofnun sem rannsakar rif heimsins, við að gera þessar stórbrotnu myndir aðgengilegar milljónum notenda í gegnum Street View í Google kortum. Catlin Seaview Survey notaði sérhannaða neðansjávarmyndavél, SVII, til að ná þessum myndum. Hvort sem þú ert sjávarlíffræðingur, áhugakafari eða argasti landkrabbi hvetjum við þig til að stinga þér í djúpu laugina og kanna höfin með Google kortum.
Sjá meira