Ferð til frumskóga
Afríku
Gombe-þjóðgarðurinn er heimkynni villts simpansastofns sem hefur verið skrásettur betur en nokkur annar í heiminum. Fyrir meira en hálfri öld hóf dr. Jane Goodall rannsóknarstarf sitt hér og arfleifð vísindalegra uppgötvana hennar lifir enn í dag. Skoðaðu þennan merka stað nánar.
Að skilja simpansana og vernda þá
Ár í rannsóknum
54
KLUKKUSTUNDIR VIÐ ATHUGANIR
200.000
Skráningar heilla æviferla
40
Á göngu okkar um skóginn hittum við Glitter með dóttur sína Gossamer á
bakinu. Kvenkyns simpansar eignast jafnan 4-6 unga með um 5 ára millibili.
Tvíburar eru sjaldséðir meðal simpansa en Glitter sjálf er þó tvíburi. Ungir
simpansar eru fyrstu tíu ár ævi sinnar hjá móður sinni og fyrstu 3-4 árin fá
þeir að vera „á hestbaki“ hjá henni.
Skoða þennan stað
Þessi simpansi er hluti af G-fjölskyldunni og er með smellið nafn: Google.
Nafnið var valið til að minnast langvarandi samstarfs JGI og Google. Hann er
af Kasakela-simpansaættbálknum, einum þriggja ættbálka í Gombe. Jafnvel þótt
yfir 160 simpansar geti verið í einum ættbálki eru þeir oftast einir eða í
minni hópum.
Skoða þennan stað
Simpansar verja um sjö tímum á dag í að éta, og þegar þeir eru ekki að því
hvíla þeir sig, leika sér og snyrta sig. Þeir eru mjög félagslynd dýr og eiga
samskipti á mjög svipaðan hátt og mannfólkið; með því að kyssast, faðmast,
kitla og haldast í hendur. Þeir öskra líka og stappa niður fótunum rétt eins
og við! Á kvöldin búa simpansarnir sér hreiður í trjánum til að sofa í.
Skoða þennan stað
Dagur í lífi simpansa
Hvernig er að eiga heima í skóginum? Slástu í för með Gombe-simpönsum eins og
Glitter og Gossamer og
lærðu um heimkynni þessara frænda okkar sem
deila 98% erfðaefnis síns með mönnum.
Kynnstu dýrunum í Gombe
Eins og allir skógar er Gombe-þjóðgarðurinn
einstakt vistkerfi sem hýsir dýr af öllum
stærðum og gerðum. Heilsaðu upp á nágrannana.
Simpansi
Pan troglodytesSimpansi
Pan troglodytes
Beinn í baki! Þótt simpansar geti staðið uppréttir á afturfótunum ganga þeir á fótum og hnúum. Líkt og menn eru þeir eru með liðuga handleggi og þumalfingur, en þeir eru einnig með langa fingur og þumaltær sem gera þeim kleift að halda sér í trjágreinar á meðan þeir sanka að sér fæðu.
Ólífubavíani
Papio anubisÓlífubavíani
Papio anubis
Vinur eða óvinur? Ungir bavíanar og simpansar leika sér saman í bernsku, en þegar þeir eldast slettist upp á vinskapinn. Bavíanar leita gjarnan í sömu fæðu og simpansar og simpansar éta bavíanaunga. Ólíkt simpönsum njóta bavíanar þess að busla og leika sér í vatni.
Runnasnákur
AtherisRunnasnákur
Atheris
Gættu að hvar þú gengur! Í lágskóginum gætir þú rekist á þennan hreistraða eitursnák sem býr í Gombe-skóginum. Simpansar deila eðlislægum ótta við snáka með mannfólki. Þeir búa meira að segja yfir sérstöku kallmerki („snákahrópinu“) til að vara aðra simpansa við því að snákar séu í skóginum.
Saurbjalla
ScarabaeoideaSaurbjalla
Scarabaeoidea
Hér er kominn sönn endurvinnsluhetja. Þessar bjöllur hnoða litlar kúlur úr saur, sem þær grafa svo og nota til að verpa eggjum í og jafnvel til þess að byggja sér heimili. Þessi skordýr gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfinu, t.d. með því að dreifa fræjum og fylla jarðveginn næringarefnum.
Þúsundfætla
SpirostreptidaÞúsundfætla
Spirostreptida
Á fótum fjör að launa! Þúsundfætlur eru þekktar fyrir fótafjöldann sem fleytir þeim yfir skógarjarðveginn, þar sem þær hjálpa til við að brjóta niður rotnandi plöntur, sveppi, dýr og skordýr. Fætur þessarar liðfætlu gegna einnig mikilvægu hlutverki þegar hún stígur stórbrotinn mökunardansinn.
Gombe-þjóðgarðurinn er verndað svæði í vestanverðri Tansaníu. Garðurinn
liggur meðfram ströndum Tanganyika-vatns og samanstendur af opnum gresjum og
skógum með lauftrjám og sígrænum trjám. Í skógum Gombe býr best rannsakaði
simpansastofn veraldar.
Skoða þennan stað
Simpansar eiga uppruna sinn í skógum Mið- og Vestur-Afríku, þar á meðal
Tansaníu. Þeir halda til nálægt trjám því að fæða þeirra er að stofni til
ávextir, en þeir éta þó einnig laufblöð, skordýr og lítil spendýr (meðal
annars apa). Þegar gengið er í gegnum skóg fullan af simpönsum má heyra þá
kallast á með hrópum og orgum. Þessi sérstöku apaköll eru hávær hróp sem simpansar nota til að láta vita af
sér og eiga samskipti við aðra.
Skoða þennan stað
Árið 1957 flutti Jane Goodall 23 ára gömul til Austur-Afríku frá heimalandi
sínu, Englandi, vegna ástríðu sinnar á afrískum dýrum. Hún starfaði fyrir
Louis Leakey, steingervingafræðinginn fræga sem taldi rannsóknir á prímötum
geta gefið vísbendingar um forsögulega forfeður manna. Ævintýraþrá Jane
leiddi hana inn í skóga Gombe í júlí 1960 en það voru frumkvöðlarannsóknir
hennar sem breyttu gangi nútímaprímatafræði.
Skoða þennan stað
Þegar Jane flutti fyrst til Gombe bjó hún í tjaldi með mömmu sinni, fylgdist með simpönsunum í gegnum gamlan sjónauka og skrifaði hjá sér athugasemdir með blýanti. Hún fylgdist með daglegum ferðum simpansanna og skráði hjá sér venjur þeirra og samfélagsgerð. Hún áttaði sig fljótt á að það sem hún sá var þvert á viðteknar hugmyndir um simpansa.
Í fyrstu voru simpansarnir feimnir við Jane, sem torveldaði rannsóknir. Með tíð og tíma vöndust þeir henni svo hún gat fylgst náið með þeim og jafnvel átt samskipti við þá. Hún sá simpansa hlæja, leika sér, snyrta sig, leita sér ætis og veiða. Hún varð líka vitni að ofbeldisfullri hegðun þeirra og m.a.s. simpansastríði. Með því að búa úti í náttúrunni með simpönsunum kynntist Jane leyndum heimi þeirra.
Á fyrsta árinu fylgdist Jane með simpansa að nafni David Greybeard nota grasstrá til að ná termítum út úr litlum holum. Hann notaði grasið sem verkfæri, en áður höfðu vísindamenn talið að eingöngu mennirnir notuðu verkfæri. Uppgötvun Jane gjörbylti því hvernig við lítum á samband manna og dýraríkisins. Við vitum nú að simpansar eru nánustu ættingjar mannsins og eiga 98% erfðaefnis síns sameiginleg með honum.
Jane var óhefðbundinn dýrarannsakandi að því leyti að hún gaf viðfangsefnum sínum nöfn í staðinn fyrir að notast við númer. Hún bjó til nafnakerfi þar sem afkvæmin fá nöfn sem byrja á sama staf og nafn móðurinnar. Þetta ættartré sýnir meðlimi G-fjölskyldunnar sem er hluti af stóra Kasakela-simpansaættbálknum. Nú er hægt að sjá Google, Glitter og Gossamer í Street View.
Árið 1977 var Jane Goodall stofnunin (JGI) sett á fót til þess að halda áfram rannsóknum í Gombe og breiða út vísindastarf og mannúðarhugsun Jane. Núna nær starfsemi JGI mun lengra en til Gombe því að stofnunin vinnur að því að vernda 85% simpansa og heimkynni þeirra víðs vegar um Afríku. Hún eflir einnig ungt fólk um allan heim til þátttöku í náttúruverndarverkefnum í gegnum Roots & Shoots áætlunina.
Vísindamenn við Gombe Stream Research Center starfa með rannsóknarstofum um allan heim, m.a. við Duke University, við að auka vísindalega þekkingu. Með því að leggja til grundvallar áralangar rannsóknir í Gombe geta vísindamenn spáð fyrir um áhrif búsvæðabreytinga, félagsmynsturs og sjúkdóma á samfélög simpansa. Simpansarannsóknir geta einnig veitt okkur upplýsingar um mannfólkið (t.d. hafa rannsóknir á SIV í Gombe-simpönsum hjálpað rannsóknum á HIV-vírusnum.
JGI hefur einnig komið á fót náttúruverndarverkefnum þar sem fólki gefst kostur á að vinna störf í heimabyggð og vinna að náttúruverndarmarkmiðum á sínu svæði, svo sem að byggja upp skóglendi og stöðva viðskipti með kjöt af villidýrum. Með því að fjárfesta í heilsu og menntun og veita þjálfun í auðlindastjórnun, landbúnaði og skógrækt auka CCC-verkefnin hagsæld og menningarstig íbúanna ásamt því að stuðla að verndun náttúrunnar.
Verndun simpansa snýst um að vernda heimkynni þeirra og þau ná út fyrir þjóðgarðsmörkin. JGI vinnur að því að útvega íbúum og þjóðgarðsvörðum í Afríku Android snjallsíma og spjaldtölvur með GPS. Skógarverðirnir nota tækin til að skrá og tilkynna um villt dýr og óheimilar ferðir fólks. Gögnunum er síðan hlaðið inn í skýið, þau eru greind með Google Earth Engine og deilt með viðkomandi stjórnendum.
Þegar gögnin frá skógarvörðunum og gervihnattamyndir eru skoðaðar saman geta vísindamenn sem starfa við náttúruvernd fengið yfirsýn yfir ástand heimkynna simpansa. Með framsækinni tækni geta vísindamennirnir skipulagt, innleitt og mælt aðgerðir til að vernda skógana. JGI vinnur að því að víkka skógarvörsluna út til þess að breiða staðbundna þekkingu út fyrir heimkynni simpansanna.
Með einstöku vistkerfi sínu, vandlega skrásettum simpansastofni og yfir 50 árum af stórmerkum rannsóknum má segja að Gombe sé lifandi rannsóknarstofa. Uppgötvanir sem gerðar eru í skógum Gombe má heimfæra á vistkerfi um allan heim. Gombe er svo sannarlega einstakur staður með mikilli náttúrufegurð, auk þess að vera mikilvægur griðastaður dýralífs og stór rannsóknarmiðstöð.
Arfleifð rannsóknanna
í Gombe
Fyrir uppgötvun Jane í Gombe var talið að mennirnir væru einu lífverur jarðarinnar sem notuðu verkfæri. Gombe hefur síðan þá verið miðstöð brautryðjendarannsókna, þar sem Jane Goodall stofnunin hefur verið í fararbroddi, með áherslu á simpansa, náttúruvernd og nærsamfélagið.
Skilaboð frá Jane Goodall
Þegar ég fór til Gombe var markmið mitt að rannsaka og fræðast um simpansana sem þar búa. Það sem ég hef lært í Gombe í gegnum tíðina hefur verið mér opinberun og auðgað líf mitt. Ég vona að ferðalag þitt um þetta vefsvæði og myndirnar í Street View verði þér jafn fræðandi og opinberandi.
Á árunum í Gombe og tímanum í kjölfarið lærði ég af eigin reynslu hve mikilvægt er fyrir okkur öll að skilja heiminn sem við búum í. Þegar við höfum öðlast sannan skilning getum við fyrst farið að láta okkur málin varða og það er fyrst þá sem við grípum til aðgerða. Það er þannig sem breytingar verða. Þannig gerum við breytingarnar sem þarf svo við getum lifað í sátt og jafnvægi á þessari plánetu okkar.
—Dr. Jane Goodall, PhD, DBE og friðarsendiherra SÞ
Stofnandi the Jane Goodall
Institute
21. október 2014
Kannaðu Gombe
þjóðgarðinn
Kynntu þér nokkrar þeirra hundruða dýrategunda sem
búa í Gombe á leið þinni um fjöruslóða og
skógarstíga í Street View.
Frekari upplýsingar


