Ekkert jafnast á við kraftinn og smæðina sem maður finnur fyrir þegar maður stendur augliti til auglitis við ísbjörn. -Karin Tuxen-Bettman, Google Earth Outreach
Nú þegar afleiðingar loftslagsbreytinga verða sífellt áþreifanlegri í heiminum er litið til ísbjarna sem nokkurs konar mælikvarða á umhverfisbreytingar. Áhrif hlýnunar jarðar má glöggt sjá í bænum Churchill í Kanada. Í þessum kyrrláta bæ við vestanverðan Hudson-flóa er sambýli manna og ísbjarna, allt þar til ísa leggur og ísbirnirnir komast út á flóann til að veiða seli, sem eru helsta fæða þeirra.
Hlýrri mánuði ársins rekur bráðnandi ísinn ísbirnina upp á land. Þótt loftslagsbreytingar virðist vera hægfara ferli sem erfitt er að festa hendur á eru áhrif þeirra raunveruleg og sýnileg í þessum höfuðstað ísbjarnanna. Í Churchill hefur hlýnun loftslags stytt tímann sem flóinn er á ís, sem skerðir veiðitíma bjarnanna um hér um bil fjórar vikur.
Í þessu ferðalagi var það stofnunin Polar Bears International (PBI), sem hefur það að markmiði að bæta aðstæður þessara tignarlegu skepna, sem bauð Google á heimskautasvæði Kanada til að líta birnina augum. PBI, Earth Outreach og Google kort hafa nú í sameiningu safnað myndefni í Street View í og í nágrenni við Churchill og Wapusk-þjóðgarðinn, svo nú getur PBI kynnt starfsemi sína fyrir fólki um allan heim.
Í Street View geturðu upplifað lífið á túndrunni upp á eigin spýtur. Flettu áfram til að læra meira um ísbirnina og heimkynni þeirra, áhrif loftslagsbreytinga og hvað PBI gerir til að bæta lífskjör ísbjarnastofnsins.
Sjá meira