Starfsfólki Outreach var boðið á vatnasvæði Amazon til að safna myndum af jörðu niðri af ám, skóglendi og samfélögum fólks á friðlýstum landsvæðum Rio Negro. Á alþjóðlegum degi skógarins, 21. mars 2012, gerðum við myndirnar aðgengilegar í Street View í Google kortum.
Það var Sjálfbærnistofnun Amazon-svæðisins (FAS), náttúruverndarsamtök af svæðinu, sem bauð okkur þangað. Við notuðum þríhjól Street View, sem við settum svo ofan á bát til að ná myndum úr siglingu niður ána, og myndavél á þrífæti með fiskaugalinsu – sem oftast er notuð til að taka myndir af innviðum fyrirtækja – til að taka myndir af náttúrunni jafnt sem byggð fólksins á svæðinu.
Að lokum vorum við komin með myndefni af Rio Negro, gönguleið í Amazon-regnskóginum og fimm byggðum fólks við árbakkann. Gefðu þér tíma í að skoða myndirnar í myndasafninu hér fyrir neðan.
Í samvinnu við FAS er það okkur mikil ánægja að geta gefið vísindamönnum jafnt sem áhugamönnum um frumskógana tækifæri til að læra meira um Amazon-svæðið og fá betri innsýn inn í hvað fólkið á svæðinu er að gera til að varðveita einstakt umhverfi sitt fyrir komandi kynslóðir.
Frá Sjálfbærnistofnun Amazon-svæðisins: Friðlýst svæði til sjálfbærrar þróunar Rio Negro er verndarsvæði sem komið var á af stjórnvöldum Amazon-svæðisins árið 2008 í þeim tilgangi að vernda umhverfið og lífshætti fólksins á svæðinu. Stjórn friðlýsta landsvæðisins er í höndum verndarsvæðastofnunarinnar CEUC hjá ráðherra umhverfismála og sjálfbærrar þróunar Amazon-svæðisins (SDS/AM). Stjórnvöld Amazon-svæðisins stýra aðgangi utanaðkomandi að friðlandinu. Frekari upplýsingar er að finna á vefsvæði CEUCe.
Sjá meira